27.3.09

Niðdimm er nóttin

3.3.09

Nafnfræðigátan 2009

Rýnið í útúrsnúningana hér að neðan og setjið íslensk BÆJANÖFN inn í viðeigandi reiti. Altso, eða bara senda svar í kommenti með viðeigandi númeri. Tölurnar í svigunum segja til um hvað margir stafir eru í nafninu. Gamla gátan er hérna.

Lóðrétt:
1: Hátt spil rennir sér á sleða (8)
4: Innfluttur skrímslatangi frá Skotlandi (7)
7: Þessir Rómverjar eru klikk (12)
8: Karlsvín hætti að þamba brennivín (10)
13: Ég sé ... ég sé ... Kántrýbæ! (11)
14: Lærdómsmóða (5)
15: Billy týndist í sænskri húsgagnaverslun (6)
16: Ἀχιλλεύς (4)

Lárétt:
2: Nákomnir menn reka út úr sér sameiginlegt líffæri (11)
3: Heimsfrægur svanur (5)
5: Með plóginn í hinni (6)
6: Benedikt setti skonsu undir, beikon ofan á og hollenska sósu allt um kring (3)
9: Bækur fást við blautan veg (3)
10: "...s Haka strandar ..." (7)
11: Þyrstir menn þar búa (10)
12: Langt í austur bjáni bjó í fornum skógi (14)
17: Flytur súpu skálina í (4)
18: Billy aftur hérna? (6)
19: Varúð! Hætta á að þungur farmur velti (4)
20: Engin þögn í lýsingarhætti (8)
21: Systir Sætu og Söltu (5)
22: Annar samastaður (8)
23: Pétur gekk allan hringinn (6)
24: Ad fontes! (6)
25: Örnefni mánaðarins í maí 2008, töfrum líkastar (7)
26: Aldrei kemst hann fram fyrir (4)
27: Byggt og búið, betra líf (7)
28: Pectus aureus (10)
30: Upp fyrir garða, garða (5)

Lárétt, lóðrétt og svo aftur lárétt:
29: Sóttvarnalæknisá (11)

Eitt númer gleymdist að setja inn á reitina. Það hefði átt að byrja aftast í sömu línu og nr. 11 er í, liggja lóðrétt í suður, spanna 12 stafi og vísbendingin: Seríostangi. Númer 25, og kannski fleiri, er auðvelt að gúkkulera -- en ætli menn geti hamið sig? Gátan er sett upp eins og krossgáta en það er eiginlega bara blöff, það er ósköp lítið um að orð krossi. Fannst það bara lúkka meira prófessjónelt svona. Gó kreisí!

2.3.09

Bókamarkaður

Ég kom út úr bókamarkaðinum á Öskjuhlíð í dag hlaðinn einni einustu bók. Fátt annað vakti áhuga minn. Frúnni tókst að koma út alveg bóklausri. Bókin sem ég keypti heitir Kennari á faraldsfæti. Minningar frá kennarastarfi eftir Auðun Braga Sveinsson, þann mikla snilling. Hún fjallar um sigra og sorgir Auðuns/Auðunar (eða Átúns eins og danskir skólakrakkar kölluðu hann) í skólastofunni og utan og er mikill skemmtilestur. Þar í er þetta:

"Ekki má þó skilja orð mín svo, að ég væri aldrei með börnunum úti í frímínútum. Var ég oft með þeim, einkum í knattspyrnunni, og þá helst í marki."

Annars er blogg lítt skrifað og minnur lesið. Ládeyða í þessu sem öðru.

Skelli kannski inn hér Nafnfræðigátunni 2009 fljótlega. Hún var borin fram fyrir mektarfólk um liðna helgi og þótti svínslega erfið. Samt gátu sumir nokkuð. Hér er forsmekkur: "9 lóðrétt: Bækur fást við blautan veg." Spurt er um íslenskt bæjarnafn.

12.2.09

Tepokablogg

Í misheppnaðri tilraun til að skilja hvað orðið tepokablogg merkir rakst ég á skemmtilega síðu. Hún ætti að höfða sérstaklega til áhugamanna um orðabækur og tedrykkju. Smellið á tepokana!

Ætli sé mikið fjör að vera þurrhumpulegur? Eða þvagsæll? Rétt upp hend sem vill láta jónína á sér rassgatið!

4.2.09

Yfirbót um tannkrem og ákveðin íblöndunarefni

Síróp og heilbrigðar tennur fara ekki saman. Ég þakka ábendinguna.

23.1.09

Ippon í Nippon


Morgungjöf bóndadagsins var Bagdad Café, gömul uppáhaldsmynd. Skoðaði frægt lag úr myndinni, Calling you, á Þúskjánum. La, la. Rakst í kjölfarið á annað skemmtilegra sem tengist myndinni ekki en deilir samt nafni með henni. Um er að ræða e.k. japanskt ska sem kom mér í gott skap á þyngslalegum degi. Takið sérstaklega eftir gulhvítri birtunni. Hana væri gott að fá í morgungjöf sem fyrst.

22.1.09

Leikhúsbyltingin